miðvikudagur, desember 31, 2008

Árið 2008

Ég ætla að gera eins og Eyvindur vinur minn og fara svona létt yfir árið sem er að líða.
Það var nú eitt og annað sem gerðist á þessu ári og fyrst ber að nefna góða sokka sem ég keypti mér í janúar. Þeir duga mér enn.

Á þessu ári hef ég búið á nokkrum stöðum. Lækjargötunni þar sem ég braut rúðu við að reyna að opna gluggann. Hvíta svaninum sem er gistiheimili á vatnsstígnum (er orðið áfangaheimili fyrir drykkjusjúka núna) og svo loks flutti ég á Njálsgötuna þar sem mér líkar bara ágætlega. Enda er það eina íbúðin af þessum þremur stöðum, hitt voru bara pínulitlar ruslageymslur.

Ég kynntist líka henni Védísi minni á þessu ári sem er það besta sem gerðist á árinu. Toppurinn á tilverunni.

Ég byrjaði með sjónvarpsþátt á ÍNN (sem er sjónvarpsstöð sem enginn veit um) sem kallaðist "Vitleysan". Það tók allt of mikinn tíma fyrir engann pening og ekkert áhorf þannig að við hættum því fljótlega en það var alveg rosalega gaman samt sem áður.

Út frá því stofnuðum við síðuna www.vitleysa.is sem við bindum miklar vonir við. Ætlum okkur stóra hluti á þessu svokallaða "Interneti"

Ég og Eyvindur gerðum líka nokkra boli fyrir síðuna www.bolur.is og ætlum að halda því áfram. Það er að segja ef fólk verður duglegt að kaupa bolina....blikk, blikk hint hint

Þetta var síðan ár númer tvö í sýninginni hans pabba og nú er búið að gefa hana út á DVD og er víst að slá öll sölumet. Virkilega frábært að hafa verið hluti af þessu og ég verð bara að segja að maður er bara pínu stoltur af kallinum. Hann á þetta svo sannarlega skilið.

Ég hélt nú reyndar mína eigin sýningu í mars sem ég kallaði "Fyndinn í fyrra" sem vísar í það að ári áður hafði ég unnið keppnina "Fyndnasti maður íslands". Ég ætlaði að gefa hana út á DVD en því miður var það ekki hægt út af tæknilegum ástæðum. En ég vil þakka Bjarna og Eyvindi fyrir að hafa tekið þátt í henni með mér.

Ég er alveg pottþétt að gleyma einhverju en ég vona að árið 2009 verði ekki bara eintóm kreppa og vonandi munu allir bara hafa það gott (andlega séð).

Gleðilegt nýtt ár öll sömul og takk fyrir það gamla!