þriðjudagur, október 30, 2007

Raufarhafnarferðin mikla

"Hvernig getur fólk bloggað um allt? Ætli við getum bloggað um þessa ferð?"
Svona var samtalið mitt og Jóns Haukdals þegar við vorum á leiðinni til Raufarhafnar að skemmta fólkinu þar. Við byrjuðum á að fljúga til Akureyri-city þar sem beið okkar bílaleigubíll. "Ratar þú?" spurði ég Jón. "Já, já ég skoðaði kort áður en ég lagði af stað" svaraði þessi viðkunnalegi en jafnframt fjölþreifni einstaklingur
(það var ekkert annað að gera í bílnum en að þreifa aðeins á hvor öðrum)

Raufarhöfn er ekki stór staður og það er ekki létt að rata þangað, sérstaklega þegar þú ert borderline þroskaheftur eins og við Haukdal. Eftir langa keyrslu og endalaust af "di da ra du du rar rara du du" söngli í okkur (náðum engum útvarpsstöðvum) og fullt af malbikslausum vegum þá vorum við komnir á Vopnafjörð. Við fórum inn á bensínstöðina þar og spurðum spurningu sem þau hafa aldrei heyrt áður "Hvar er Raufarhöfn?" Með forundran þá benti fólkið okkur á að Raufarhöfn væri í einn og hálfan klukkutíma í þá átt sem við vorum að koma úr. Semsagt við keyrðum einn og hálfan klukkutíma of langt og það var tæpur klukkutími í skemmtunina. Við gátum líka loksins hringt í tengiliðinn á Raufarhöfn þar sem við vorum í fyrsta sinn í símasambandi. "Uhhh við erum á Vopnafirði og vitum ekki hvort við náum að komast á réttum tíma" sögðum við með skömmustulegum tón, tengiliðurinn var ekki ánægður.
Við keyrðum á (Ó)löglegum hraða eftir malbikslausum vegum og sungum meira "du ra didi dada ra di rara) en að lokum fundum við Raufarhöfn og það 5 mín áður en skemmtunin átti að hefjast. Það fyrsta sem við sáum var heill haugur af ungum krökkum,ekki gott mál þar sem óheflað málfar er hluti af skemmtun okkar beggja. Við brugðum þá á það ráð að biðja krakkana að halda fyrir eyrun sín í hvert sinn sem við réttum upp hendina áður en við sögðum eitthvað fullorðins. Krakkarnir tóku vel í þetta og fannst þetta bara vera skemmtilegur leikur, sumir áttu þó erfiðara að finna eyrun en aðrir en þetta hafðist þó. Bæði ég og Jón Haukdal vorum með brandara um Guðmund í Byrginu en það kom í ljós eftir skemmtunina að kvikindið er víst frá Raufarhöfn....ÚPS!!

Um kvöldið fengum við að smakka kengúrukjöt og svartfugl og vil ég þakka hóteleigundum staðarins fyrir frábærar móttökur og almennilegheit, virkilega fínn staður.


Þannig að, já það er hægt að blogga um þessa ferð Jón. Heldur betur!!

fimmtudagur, október 25, 2007

Heilalím

Ég er gjörsamlega með þetta lag á heilanum!!
"Neon bible...neon bible....neon bible........"



Ég er að fíla þessa hljómsveit sem heitir Arcade fire, nokkur góð lög á þessari plötu sem heitir by the way......"Neon bible"
Vil bara segja þér Sigríður Thorarensen ( a.k.a stupid mom )að þú ert alltaf með puttann á púlsinum, kannski vegna þess að þú býrð með gamalmenni og oft þarf að athuga lífsmörkin en einnig ertu bara alltaf svo hipp og kúl. Takk fyrir að troða þessari tónlist inn í hausinn minn.

miðvikudagur, október 10, 2007

"Fokk Jú" puttinn

Þegar ég var lítill drengur átti ég það til að slasa mig, enda alltaf eitthvað vesen á mér. Ég hælbrotnaði, handleggsbrotnaði og brákaði hitt og þetta. Eitt sinn var ég að leika mér í hálfkláruðum kofa sem einhverjir eldri krakkar voru að smíða og var að klifra þarna út um allt. Einhvern veginn náði ég að detta niður um gat á þakinu og festa puttann minn á nagla, sem hélt mér uppi, þannig að ég hékk bara á puttanum.
Ívar bróðir minn kom mér til hjálpar eftir að hafa heyrt í mér öskra og grenja. Ég mundi nú aldrei vel eftir þessum atburði, minnti alltaf að puttinn hefði litið út eins og banani í bananhýði sem væri búið að fletta aðeins niður, en í gær var móðir mín að segja mér frá því að puttinn hafi hangið á bláþræði og að læknarnir hafi talið miklar líkur á að taka þyrfti puttann af. Þeir voru mjög hissa þegar að það kom líf í hann. Semsagt kraftaverkaputti. Við það að heyra þetta fékk ég sting í puttann sem aldrei neitt hefur amað að og hef ekki losnað við þennan sting síðan.
Þessi umræddi putti er langatöng eða "FokkJú" puttinn svokallaði. Þannig að í hvert sinn sem þið fáið "FokkJú" merki frá mér, þá er það kraftaverk.

Eru þessir tvíburar skyldir?

Jæja í fyrrakvöld eignaðist Ívar bróðir minn tvíbura, tvo stráka sem sverja sig svo sannarlega í ættina, svo myndarlegir eru þeir ;)

Ég er búinn að finna mér herbergi til að leigja á Hringbraut, allir að deyja þar, þannig að það er nóg af lausu plássi. Þetta er lítið stúdíókvikindi, þannig að maður er með allt sér.

Á mánudaginn var ég vakinn klukkan 9 um morguninn. Það var Menntaskólinn í Kópavogi. Ég átti að vera kominn upp á svið að skemmta, heill skóli var að bíða eftir mér. Fyrsta skiptið sem ég heyrði um þessa skemmtun, það gleymdist víst að láta mig vita.
Ég hljóp út í kvíðakasti og ætlaði að fara að keyra af stað, en nei.... AUÐVITAÐ FÓR BÍLLINN EKKI Í GANG!! Ég hringdi í paniki í stúlkuna sem vakti mig svo fallega og sagðist vera bíllaus, ekki vandamál og bíll var sendur af stað til að ná í mig.
Ég held að ég hafi aldrei verið jafn myglaður, stressaður og utan við mig eins og þennan mánudagsmorgun. Ég mundi nú flest af prógramminu mínu en framsetningin var ekki sú besta. Salurinn var troðfullur og greinilega góð mæting, ég hugsaði með mér
" er ég svona vinsæll?" en svo var alls ekki málið, eftir uppistandið fengu allir nefnilega stimpill um að þeir hefðu mætt, semsagt skyldumæting!! Jeiij ég er vinsæll.

Svo á ég andlega bilaðan kött.

Meira er það ekki að þessu sinni, njótið líkama ykkar til fullnustu!!

mánudagur, október 01, 2007

Allt að gerast!!

Jæja það er búið að vera nóg að gera hjá pörupiltinum undanfarið. Sýningin Heimsendir fór af stað og byrjaði í Sjallanum og gekk það bara vel, frekar steikt sýning og þá sérstaklega endirinn þar sem við dönsum og túlkum heimsendi. Held samt að Úlfar sé skotinn í mér því hann kyssti mig á meðan ég var sofandi en við skulum ekkert fara nánar út í það. Svo hitaði ég upp fyrir Pablo Francisco í Háskólabíó, það var skemmtileg reynsla, held að það hafi bara gengið ágætlega. Ég sofnaði reyndar baksviðs og hann kyssti mig á meðan ég var sofandi, veit ekki hvað er málið með þessa kossa. En skiptir ekki, haldið um rassgatið á ykkur og hafið það gott.