miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Fangavörður hvað?

Ég var að koma af Astrópíu og í lok myndarinnar kom kreditlisti og þar var ég titlaður sem fangavörður nr 3, ég hélt að ég hefði bara verið fangi sem varla sást í. Svona er nú heimurinn skrýtinn.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Fóstbræður á DVD

Ég ætla mér að kaupa allan pakkann, margt virkilega fyndið í þessum þáttum. Gjörsamlega dýrkaði þá á unglingsárunum og hef enn gaman af því sem ég man eftir. Það mætti margt annað koma á DVD, Heilsubælið t.d og margir aðrir góðir. Hvað mynduð þið vilja sjá á DVD? Íslenskt er ég að sjálfsögðu að tala um, gömul áramótaskaup? Undir sama þaki? Djúpa laugin? Plís ekki segja djúpa laugin einhver!!



p.s RADÍUSBRÆÐUR Á DVD!!!!!

Snilld

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Astrópía



Frumsýningin á ævintýra/gamanmyndinni Astrópíu er í kvöld og er mikið húllum hæ í kringum það. Ég var þarna í statistahlutverki sem fangi og gæti þessvegna handleggur eða jafnvel fótleggur sést á hvíta tjaldinu sem tilheyrir mér. Ég hefði alveg verið til að sjá hana í kvöld en ég fékk ekki neinn boðsmiða (ætli hinir aukaleikararnir hafi fengið sendann boðsmiða? Pottþétt)
En þá er bara að kaupa sér eitt stykki miða, ætli hann kosti ekki 15 þúsund krónur fyrst að hún er íslensk, og reyna að sjá hvort manni bregði ekki fyrir þarna einhversstaðar á bakvið. Ciao bella

sunnudagur, ágúst 19, 2007

Viðtal á frumraun.is

Ég var að sjá viðtal sem var tekið við mig af fjölmiðlahópi hafnafjarðar, þetta eru krakkar úr vinnuskóla hafnafjarðar og voru þau að gefa út blaðið frumraun. Eitthvað fór nú úrskeiðis með mitt viðtal (auðvitað) og komu ekki rétt svör við sumar spurningarnar. Það var alltaf eins og ég væri að svara spurningunni sem kom næst á eftir, jú jú ég er með skyggnigáfu.
en hér er viðtalið eins og það á að vera:

Hvað fékk þig til þess að vilja vera uppistandari?

Það er þessi þörf að fá fólk til að hlæja og það er ekki betri
tilfinning en þegar það tekst

Var eitthvað eitt atvik sem hafði áhrif á það að þú fetaðir þessa slóð?

Já ég fékk einu sinni vitlaust til baka í sjoppu og þá hugsaði ég "
Hey ég ætla að vera uppistandari" en nei ekki eitthvað eitt atvik
myndi ég segja, heldur bara áhuginn og viljinn fyrir að fara út í
þennan bransa

Hvað er það helsta sem þú gerir grín að?

Aðstæðum sem ég hef lent í og hversu mikið fífl ég er

Hvað þarf að hafa til þess að vera góður uppistandari?

Húmor.... og tímasetningu sem skiptir rosa miklu máli í gríni, góð
tímasetning er algert lykilatriði

Hvern telur þú vera fyndnasta mann á Íslandi?

Ég get alltaf hlegið að Pétri Jóhanni Sigfússyni úr Strákunum og
Þorsteini Guðmundssyni. En ég vann keppnina þannig að ég verð að segja
ég ;)

Hverjar eru verstu móttökur sem þú hefur fengið?

Hef nú aldrei fengið það slæmar móttökur, en ég hef lent í
klúðurslegum aðstæðum eins og að hljóðneminn virki ekki eða enginn er
að hlusta af því að allir eru orðnir svo fullir, það er mjög
óþægilegt, já og ekki ráða uppistandara til að skemmta í stofunni hjá
þér, það gengur ekki upp hehe.

Hefur einhverntíman verið grafaþögn hjá þér eftir brandara?

Jájá en þá gerir maður bara grín að því og segir þann brandara aldrei aftur

Hvað er erfiðasta við að vera uppistandari?

Að vera með uppistand fyrir fáa, eins og t.d inn í stofu hjá
einhverjum. Því fleiri því betra

Hvað er það vandræðislegasta sem hefur gerst hjá þér á sviði?

Það var þegar ég kom fram í Djúpu Lauginni sem var sýnt á Skjá Einum
og átti að vera með uppistand og gleymdi gjörsamlegu öllu sem ég átti
að segja, og það í beinni útsendinu.
Það var ansi pínlegt.

Áttu þér einhverja fyrirmynd?
Monty Python hópurinn og Jim Carrey. Svo náttúrulega hann pabbi gamli
sem er að slá í gegn á þessu ári með safnplötunni sinni og
afmælissýningunni " Laddi 6-tugur" sem ég er einmitt í. Hvet alla til
að kíkja á þessa sýningu

Varst þú fyndnastur í skólanum þínum?

Það verða aðrir að dæma það en ég man allavega eftir dönskukennara sem
gat ekki hætt að hlæja og faldi sig alltaf á bakvið kennslubókina til
að fela hláturinn. Hún átti mjög erfitt með að skamma mig greyið.

Hvaðan færð þú helsta innblástur?

Á ótrúlegustu stöðum, út í búð, í bíó eða á spjalli við vinina. Maður
verður bara að vera duglegur að skrifa hugmynd strax niður, annars
gleymir maður henni. Maður heldur alltaf "ahh ég man nú eftir þessari,
hún er svo góð" en svo þegar maður ætlar að rifja hana upp þá er hún
farin.

Æfir þú uppistandið fyrir framan vini þína áður enn þú gerir það á sviði?

Ég gerði það fyrir keppnina FMÍ 2007 en annars geri ég það ekki.
Finnst eitthvað hallærislegt að vera með uppistand fyrir framan eina
eða tvær manneskjur. En ég spyr oft hvort eitthvað sé fyndið, þá
aðallega bróðir minn sem ég er að leigja með, en það er ekkert að
marka hann enda engin húmor í honum.

Hefur einhver móðgast yfir uppistandi sem þú hefur gert?

Já já ég hef nú alveg heyrt eitt eða tvö andköf en annars er alveg
ótrúlegt hvað maður getur gengið langt stundum. En ég held að ég sé
ekkert grófur þannig séð. Fyrir mér er húmor vel til þess fallin að
stinga á kýlum samfélagsins og þá eru það bara einhverjar
Smáralindarbæklingateprur sem skilja ekki húmorinn. Eins og Hugleikur
Dagsson, hann þykir stundum grófur en hann er bara að benda á hluti
sem þegar eru til í samfélaginu