mánudagur, desember 31, 2007

Árið í hnotskurn

Árið 2007 var ansi gott ár fyrir mig, starfsferilslega séð. Í byrjun ársins var ég með þátt á Rás 2 sem hét Tímaflakk. Margir hötuðu hann, sumir elskuðu hann, en flestir vissu ekkert um hann. Hann hætti. Svo í mars vann ég keppnina "Fyndnasti maður íslands" og eftir það fór boltinn að rúlla í uppistandinu og var ansi mikið að gera það sem eftir var af árinu í þeim málum. Í febrúar frumsýndi pabbi gamli sýninguna sína "Laddi 6-tugur" og áttu þetta einungis að vera 4 sýningar. Sú varð ekki raunin og um daginn var sýning nr 81, og þetta er ekkert á leiðinni að fara að hætta. Ég og Eyvindur erum svo búnir að plana mikið á þessu ári og gera ýmis framtíðarplön, skemmtum til að mynda í fyrsta sinn saman sem tvíeyki, það gekk vonum framar og á árinu 2008 ætlum við að vera stórhuga í skapandi verkefnum.
Ég hitaði upp fyrir hinn heimsfræga uppistandara Pablo fransisco í háskólabíó, og var það virkilega skemmtileg reynsla. Ég fékk að vera með í afar skemmtilegri en skammlífri uppistandssýningu ásamt Þorsteini Guðmundssyni og Úlfari Linnet, mikill heiður að fá að skemmta með þessum herramönnum og þá sérstaklega honum Þorsteini, alltaf verið mikill aðdáandi hans. Svo skemmti ég einu sinni í fimmtugsafmæli þar sem ég móðgaði alla. Þetta gengur víst ekki alltaf upp, en maður lærir af öllu. Sérstaklega var ég ánægður með viðbrögð mín þegar konan sem réð mig hringdi í mig og jós yfir mig þvílíkum svívirðingum og skammaryrðum, held að ég hafi aldrei lent í dónalegri framkomu á ævi minni. En ég hélt ró minni og talaði við hana á kurteisum nótum og missti aldrei stjórn á skapi mínu. Var ánægður með mig þar. Þótt mér hafi að sjálfsögðu liðið illa eftir þetta símtal þá komst ég að dálitlu um sjálfann mig sem gladdi mig. Ég var þroskaðari en 40 ára gömul kona, nanananananana.

Ég flutti tvisvar á þessu ári. Fyrst til Grafarvogs með brósa og Gulla vini mínum og svo flutti ég einn í hitakompu á Hringbraut í Vesturbænum þar sem ég næ Rúv með herkjum og netsamband er ekkert. Ég er oft í heimsókn hjá mömmu þessa dagana. Þar er netsamband og margar sjónvarpsstöðvar, sannkallað lúxuslíf.


Svona var árið 2007 hjá mér. Ásamt hræðilegum hlutum sem ég mun aldrei tjá mig um. Eina sem ég get sagt er að ég mun aldrei fara til Finnlands eftir þetta. Hvað sem svo það þýðir.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég veit hvað það þýðir

8:22 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home